Skýrslutökur eftir dóminn í Héraðsdómi




.
Efnisyfirlit hér.

Index in English here


Þessi ljósmynd tekin sumarið 1968
af ljósmyndara Morgunblaðsins.
Heil syrpa til af þessum atburði.
Matthías Jóhannesen þá ritstjóri Morgunblaðsins
fór með gamla manninn í vinnustofuna hans í Sigtúni 7 og
að því er virðist hélt að honum áfengi til
þess að fá hann til að tala, gamalt bragð blaðamanna.
Þá um haustið á afi að hafa gefið innihald vinnustofunnar
munnlega og leynilega til Reykjavíkuborgar, þar á meðal
meira en 5000 listaverk. 29. janúar þann vetur var hann kominn á
geðdeild Borgarspítalans þar sem hann lést árið 1972.


ENDURRIT
ÚR
ÞINGBÓK
HÉRAÐSDÓMS REYKJAVÍKUR

Mál nr. V-2/2007
Beiðni um skýrslutöku fyrir dómi.


5. mars 2007

Ár 2007, mánudaginn 5. mars, er dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur háð í Dómshúsinu við Lækjartorg af Sigríði J. Hjaltested settum héraðsdómara settum héraðsdómara.

Fyrir er tekið
Mál nr. V-2/2007
Beiðni um skýrslutöku fyrir dómi.

Lagt er fram:

Nr. 1 Beiðni um skýrslutöku fyrir dómi dags. 23. janauar 2007.

Að hálfu sóknaraðila sækir þing Kristbjörg Stephensen hdl.

Að hálfu varnaraðila sækir þing Kristinn Bjarnason hrl.

Samkomulag er með lögmönnum um að vitnamál þetta heiti Reykjavíkurborg gegn dánarbúi Jóhannes Reynissonar Kjarval.

Þá kemur fyrir dóminn Jón Halldór Gunnarsson, kt. 010927-3819, Vesturbergi 138, Reykjavík.

Áminntur um sannsögli. Skýrslutakan er hljóðrituð kl. 13.21 til 13.41.

D: Lögmaður sóknaraðila gjörðu svo vel.

KS: Já Kristbjörg Stephensen spyr, Jón þú ert kallaður hér fyrir dóminn þar talið er að þú getir varpað ljósi á atburði sem gerðust haustið 1968, getur þú greint dóminum frá því í stuttu máli því sem gerðist þarna um haustið? V: Já ég get það, ég keyrði sendibíl og keyrði mikið fyrir borgina og var í 30 ár og haustið 1968 þá var mér sagt að fara inn í Breiðfjörðsblikksmiðju, ég man ekki alveg hvenær það var en ég held að það hafi verið í október og aðstoða Jóhannes Kjarval við að hreinsa út úr vinnustofu sinni uppi á lofti í Breiðfjörðsblikksmiðju sem ég gerði og þar vorum við saman í hálfan mánuð tæpan frá svona níu á morgnana til fjögur á daginn og hann rétti mér það sem hann vildi losna við og ég setti það niður í kassa og keyrði svo kassana jafnóðum niður i skjalasafn borgarinnar í Skúlatúni 2. Þetta gekk mjög vel hjá okkur samvinnan og hann var léttur og hress, við vorum búnir að kynnast dálítið áður og ja það er eiginlega ekki miklu við þetta að bæta nema þið viljið spyrja einhvers.

KS: Varstu einn við þessa vinnu með Kjarval eða voru fleiri þarna? V: Nei við vorum bara tveir og hann læsti alltaf að okkur.

KS: Þessi verk og munir, hvar sagðir þú að þeir hefðu verið, þessir munir og verk sem þið voruð að taka saman, hvar var þetta geymt? V: Allt svo áður en ég tók það?

KS: Áður en þú tókst það? V: Í vinnustofunni hans í Sigtúni, upp á lofti í Breiðfjörðsblikksmiðju

KS: Uppi á lofti? V: Já þar hafði hann vinnustofu og við hreinsuðum allt út úr henni á þessum tíma og fórum í gegnum allt og ég tök allt bæði rusl, gömul hálsbindi sem hann hafði þurrkað í málningu og svona.

KS: Kom fram þegar þið voruð að vinna þetta í hvaða tilgangi Kjarval var að afhenda Reykjavíkurborg þetta? V: Já sko hann nefnilega sem mér kom dáldið spánskt fyrir eða eyru að hann sagði alltaf við skulum gefa þeim þetta þó að það væri bara rusl.

KS: Og hann talaði um í staðinn fyrir að ætla að gefa, þá sagði hann við? V: Nei hann sagði ekki ég sko hann sagði alltaf við og eftir því sem leið á tímann þá varð alltaf léttara yfir honum það virtist létta yfir honum þegar hann var búinn að hreinsa þarna út og þegar við vorum búnir þá dansaði hann valspor raulandi fram að dyrum til að hleypa mer út með síðustu kassana.

KS: Ég held að það sé ekki fleiri spurningar af hálfu sóknaraðila.

D: Lögmaður varnaraðila gjörðu svo vel.

KB: Já það er Kristinn Bjarnason sem spyr, kannski fyrst að þú sagðist hafa ekið sendibíl á þessum tíma ekki satt? V: Já.

KB: Á hvaða sendibílastöð var að? V: Sendibílastöð hf.

KB: Hafðir þú eitthvað ekið fyrir Kjarval áður? V: Já ég hafði bæði farið með málverk og sótt í innrömmun og ég hafði farið með þegar hann var að selja málverk og fór með þau til að sýna þau.

KB: Varstu í einhverju vinfengi við Kjarval? V: Nei bara eins og ég var við alla kúnna.

KB: Greiddi Kjarval þá sjálfur fyrir aksturinn yfirleitt? V: Hann gerði það þá allt svo ekki eftir að ég kom í Breiðfjörðsblikksmiðju.
KB: En þarna áður en það kom að því greiddi hann þá bara samkvæmt mæli? V: Já, já.

KB: En í Breiðfjörðsblikksmiðju hver var það sem bað þig um að fara það? V: Verkstjórinn minn í áhaldahúsi Reykjavíkurborgar.

KB: Fyrirgefðu? V: Verkstjórinn minn sem þá hét Reynir Þórðarson í áhaldahúsi Reykjavíkurborgar eða Trésmiðju Reykjavíkur eins og hún var nú kölluð líka.

KB: En það var sem sagt starfsmaður Reykjavíkurborgar sem að? V: Sendi mig.

KB: En varstu þá í sem sagt varstu í starfi hjá Reykjavíkurborg eða sem sagt varstu að keyra langmest fyrir Reykjavíkurborg? V: Ég var eingöngu hjá Trésmiðjunni í 32 ár og keyrði þá fyrir öll fyrirtæki borgarinnar bæði skóla og barnaheimili.

KB: En nafnið var segirðu að maðurinn sem bað þig um þetta heitir Reynir? V: Ég tel alveg víst að hann hafi sent mig en það gæti líka hafa verið Ársæll Kjartansson sem var undirverkstjóri.

KB: Manstu hvenær þessi vinna hófst? V: Ekki upp á dag, þetta var um haustið.

KB: Þú hefur ekki haldið neina dagbók? V: Nei ég er löngu búinn að henda öllum vinnuskýrslum, ég skrifaði alltaf vinnuskýrslur en ég er löngu búinn að henda þeim.

KB: En þú manstu sem sagt ekki hvenær þú byrjaðir í þessu en manstu eitthvað hvenær þú laukst? V: Ég held, það er ekki alveg pottþétt upp úr miðjum október líklega uppundir 20. og ég held að það hafi verið fyrstu dagana nóvember sem að, ég man þetta ekki alveg upp á dag.

KB: En varstu sem sagt þarna alla daga alveg á meðan þetta stóð yfir frá morgni og fram á dag? V: Nei ég fór yfirleitt eftir morgunkaffi sem var klukkan níu og var til svona hálffjögur, fjögur en við unnum þá til tuttugu mínútur fyrir sex held ég.

KB: Þú lýstir því áðan að þú hefir farið með kassa á skjalasafn Reykjavikur, fórstu með einhverja muni eitthvað annað? V: Nei ekkert það var allt þar beint inn og ég hafði læstan bílinn á meðan ég bar inn, ég fór aldrei frá honum opnum og þetta var læst inni alltaf jafnóðum, maður sem tók á móti þessu Skúlatúninu.

KB: Aldrei farið á skrifstofu borgarstjóra? V: Nei,nei þetta fór allt inn á jarðhæðina í Skúlatúninu.

KB: Aldrei farið á skrifstofu borgarstjóra? V: Nei, nei þetta fór allt inn á jarðhæðina
í Skúlatúninu 2, herbergi vinstra megin.

KB: Hvernig var greitt fyrir þessu þjónustu og hver greiddi? V: Mér?

KB: Já V: Ég var eingöngu bara í vinnu hjá Reykjavíkurborg frá morgni til kvölds og ég gaf bara vinnuskýrslu eftir vikuna og svo var mér greitt eins og launþegunum hinum.

KB: Var það samkvæmt mæli eða? V: Nei það var fastagjald, við höfðum það líka fastagjald þegar við vorum í vinnu sem tók fleiri en einn dag.

KB: Greiddi Kjarval ekkert til þín? V: Nei ekki neitt.

KB: Veistu til þess að hjá Sendibílastöðinni sjálfri hafi verið haldin einhver dagbók eða einhver gögn um þessa vinnu? V: Örugglega ekki, ég var ekkert á stöðinni þennan tíma sem ég var hjá borginni þessi 32 ár, nema bara til að borga gjöldin mín.

KB: Fékkstu einhverjar gjafir frá Kjarval í tengslum við þetta? V: Nei ekkert.

KB: En manstu eitthvað sérstaklega eftir deginum 28. október 1968 í sambandi við þetta mál og þá hafi hugsanlega verið farið með eitthvað annað en í? V: Þennan tíma sem ég var þarna vorum við bara tveir þarna og hann læsti að sér að okkur er kannski réttara að segja af því að hann vildi vera í næði.

KB: Og voru engir aðrir bílstjórar sem keyrðu, sást þú líka um aksturinn? V: Nei ég varð ekki var við nokkurn bílstjóra eða nokkrar menn þarna sem komu inn allavega.

KB: Þú hefur ekki séð Alfreð Guðmundsson þarna? V: Nei.

KB: Ólaf Þórðarson? V: Nei ég þekkti þá báða.

KB: Sástu einhvern tímann Guðmund Alfreðsson þarna son Alfreðs Guðmundssonar?
V: Nei ég er ekki alveg með á hreinu hver það er en ég sá hann held ég örugglega ekki því að það voru engir þarna nema við tveir, við vorum bara í ró og næði í þessu.

KB: Manstu eitthvað eftir deginum 7. nóvember 1968? V: Byltingardeginum?

KB: Já. V: Nei ég man nú ekki eftir því.

KB: Manstu eitthvað eftir að það hafi verið rætt um að Geir Hallgrímsson borgarstjórinn fyrrverandi hafi komið þann dag? V: Hann kom ekki örugglega á meðan ég var þarna og þegar ég fór síðast þarna út þá var eiginlega ekkert eftir þarna inni nema eitthvaðc prívat dót sem hann átti sjálfur eða svoleiðis hann Jóhannes.

KB: En þú segir að Kjarval hafi sagt “við skulum gefa þetta” hvað taldir þú þá að hann ætti við þegar var verið að tala um “við” í því samhengi? V: Ég vissi alveg hvað hann átti við en mér fannst skrýtið að hann skyldi nefna mig í því sambandi en ekki bara ég ætla a gefa þeim þetta.

KB: En spurðir þú hann einhvern tímann að því eða sem sagt kom þetta fram með einhverjum skýrum og beinum hætti að allt það sem þarna færi út væri ætti að vera, að hann væri að gefa það til Reykjavíkurborgar sagði hann þér frá því eða hvernig gerðist það að í hvaða samhengi komu þess orð sem þú ert að lýsa? V: Þegar hann rétti mér hlutina sem ég átti að setja í kassa, ég setti allt í kassa sem rétti mér og náttúrlega ég tók ekkert nema það sem hann rétti mér.

KB: Þannig að þú manst það nákvæmlega að hann segir þetta svona sem sagt “Við skulum gefa þeim þetta” og eitthvað slíkt? V: Já það er svona með eldri menn að þeir muna best það sem að lengst er liðið í mörgum tilfellum.

KB: En manstu eitthvað að öðru leyti, hvernig kom Kjarva þér fyrir sjónir þessa daga sem þið voruð þarna, hvernig var heilsan svona? V: Ég var hissa á því hvað hann var léttur og ræðinn þegar við vorum þarna tveir.

KB: Og hvernig fannst þér heilsan svona koma, var hann heilsuhraustur eins og hann virkaði? V: Hann virtist vera það.

KB: En þú kannast sem sagt ekki við það að það hafi komið fleiri? V: Nei ég er alveg öruggur á því, ekki meðan ég var þar.

KB: Þekktir þú eitthvað til Þorvalds Þorvaldssonar leigubílstjóra eða þekkir þú eða þekkir?
V: Já, já, við þekkjumst enn.
KB: Og er vinskapur með ykkur? V: Við erum búnir að vera góðir kunningjar , við erum búnir að vinna saman í gegnum veislur hjá borginni, hann var varabílstjóri hjá borgarstjóra oft til að sækja fólk og skila fólki.


KB: Kom Þorvaldur Þorvaldsson eitthvað, manstu eitthvað eftir honum í tengslum við þetta? V: Nei ég myndi muna eftir því, hann kom ekkert þarna.

KB: Veistu til þess að Þorvaldur hafi verið að vinna fyrir Reykjavikurborg og borgarstjóra á þessum tíma’68, manstu eitthvað eftir því að því þú ert nú að vinna fyrir borgina, var hann að vinna fyrir borgina þá líka? V: Já hann var ekki stanslaust en til dæmis þegar voru haldnar veislur eða ráðstefnur og svona þá var hann yfirleitt alltaf með Jóni borgarstjóra bílstjóra þeir voru á tveimur bílum þá.

KB: En þekkir þú til Alfreðs Guðmundssonar á þessum tíma? V: Já, já ég var málkunnugur honum í gegnum vinnuna.

KB: Var einhver vinskapur á milli ykkar? V: Nei ekki frekar bara diplómatískar svona já eða nei eins og maður segir.

KB: En vannstu þá eitthvað fyrir, þurftir þú að eiga samskipti við hann í sambandi við þína vinnu fyrir Reykjavíkurborg? V: Nei það var held ég örugglega ekki, ég man ekki alveg hver var yfirmaður þegar Kjarvalsstaðir voru opnaðir en þá sótti ég á annað hundrað málverk út um bæ til að hafa á sýningunni þegar Kjarvalsstaðir voru opnaðir.
KB: Hafðir þú einhver samskipti við Alfreð þetta haust ’68 í sambandi við það sem var verið að gera í Sigtúni? V: Nei ekkert.

KB: En hittir þú Kjarval eitthvað aftur eftir að þú ert búinn að ljúka þinni vinnu þarna í Sigtúni? V: Ég held örugglega að ég hafi ekki séð hann eftir það.

KB: En þekkir þú eitthvað til Geirs Hallgrímssonar á þessum tíma? V: Já, já sem vinnuveitanda meðal annars.

KB: Og hafðir þú unnið fyrir hann beint eitthvað eða sem sagt hafðir þú þurft að eiga samskipti við hann í sambandi víð þína vinnu fyrir Reykjavíkurborg? V: Nei ekkert fyrir hann sjálfan?

KB: Ertu eitthvað tengdur Sjálfstæðisflokknum, flokksbundinn eða eitthvað slíkt? V: Ég er hvergi flokksbundinn.

KB: En eitthvað tengdur honum? V: Nei ekki heldur.

KB: þen þú ert samt ekki félagi þar en ertu eitthvað tengdur frímúrurum eða einhverjum slíkum samtökum. V: Nei.

KB: Þá langa mig til að spyrja þig að því, nú hefur þetta mál verið í gangi í alllangan tíma og af hverju, nú hefur það minnsta kosti á stundum sagt frá því opinberlega, af hverju þú hafðir ekki komir fyrr með þína vitneskju? V: Ég taldi mig ekki hafa neitt að segja en ég fyrirsögn í blaði sem varð þess valdandi að ég hringdi niður í Ráðhús og það var þess, undirfyrirsögnin var að hann hefði verið kominn út úr heiminum og það get ég aldrei samþykkt því hann virtist alveg heiðskýr þegar þetta var.

KB: En vissir þú eitthvað um hans heilsufar að öðru leiti, vissir þú eitthvað hvort hann var með einhverja sjúkdóma eða eitthvað slíkt. V: Ekki svo að hann minntist á það við mig og hann var alltaf a hreyfingu að skoða þetta og taka þetta til og.

KB: Ræddir þú það við einhvern áður en þú tókst þessa ákvörðun að hafa samband við borgina, ræddir þú það við einhvern sem hafði hugsanlega komið fyrir sem vitni í málinu á fyrri stigum? V: Nei ég ræddi það ekki við neinn.

KB: Þannig að þetta er sem sagt ástæðan að þú hefur samband við Reykjavíkurborg út af þessu og þú gerir þá af.....V: Ég gerði það að eigin frumkvæði, ég er einbýlingur og bara hef mínar ákvarðanir yfirleitt einn.

KB: Nú langa mig að bera undir þig hérna eða spyrja þig aðeins nánar út í gjaldtökuna það liggur hérna fyrir í málinu bréf sem að, þar sem Ólafur Þórðarson sem þú kannast við er það ekki? V: Ja bara lítillega í gegnum vinnuna.

KB: Bréf sem hann ritaði til Sveins Kjarvals þarna haustið 1968 þar sem hann er meðal annars að lýsa atvikum þarna í Sigtúni og þar er hann að lýsa samskiptum við Kjarval og meðal annars samskiptum sem snúa að því að Kjarval sé að spyrja piltana eins og þar er sagt og það er nú greinilega verið að eiga þar við einhverja bílstjóra eða einhverja slíka að eitthvað á þá leið að það segir “ Hvað kostar þetta piltar” þetta er sem sagt Ólafur er að skrifa þetta til Sveins “Hvað kostar þetta piltar” hann er að lýsa atvikum og þá hafi þeir sem eru þá bílstjórarnir sagt “við þurfum að skreppa út til þess að lesa mælana, ég heyri að annar sagði 175, krónur 175” ertu alveg viss um það að það hafi verið þannig í fyrsta lagi að þú hafir verið þarna einn á ferð miðað við þetta sem er Ólafur Þórðarson er að skrá þarna niður eftir samskiptum sínum við Kjarval og að það hafi verið greitt samkvæmt mæli þarna og Kjarval hafi komið að því verki sjálfur? V: Ég er með þetta hvorutveggja á hreinu því ég keyrði ekki eftir mælir á meðan ég var hjá Reykjavíkurborg þessi 32 ár það var bara fastagjald sem við megum taka eða máttum taka.

KB: Og þú ert þá með það á hreinu líka að það hafi enginn annar sem að þú vitir til komið nálægt þessum akstri eða þessum frágangi þarna? V: Ekki meðan ég var þar, ég er alveg með á hreinu. En hvað hefur skeð utan þess tíma get ég náttúrlega ekkert sagt um eftir að ég fór heim á kvöldin og svona en ekki í sambandi við þetta mál.

KB: Þú kannski manst þá ekki heldur hvenær það var fyrst, hvenær þú fórst með fyrstu kassa eða fyrstu muni niður í skjalasafn eða eitthvað annað til Reykjavikurborgar? V: Nei mér er ómögulegt að muna það svona nákvæmlega.

KB: Það er komið hjá mér.

D: Eru fleiri spurningar?

KS: Nei.

D: Þá er þetta komið

Víkur frá.

Vitnamálinu lokið.

Dómþingi slitið

Sigríður Hjaltested.

Vottur:

Hulda Júlía Sigurðardóttir.

---------------------------------------------------------------
---------------------------------------------------------------

E N D U R R I T
Ú R
Þ I N G B Ó K
H É R A Ð S D Ó M S R E Y K J A V Í K U R








Mál nr. V-10/2007
Beiðni um skýrslutökur fyrir dómi.










Reynir Þórðarson bls. 2-7
Jón Árnason bls. 7-9










7. maí 2007



Ár 2007, mánudaginn 7. maí, er dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur háð í Dómhúsinu við Lækjartorg af Sigríði J. Hjaltested settum héraðsdómara.

Fyrir er tekið:
Mál nr. V-10/2007
Beiðni um skýrslutöku fyrir dómi.
Lagt er fram:
Nr. 1 Beiðni um töku vitnaskýrslna skv. 75. gr. sbr. 76. gr. laga nr. 91/1991.
Af hálfu sóknaraðila sækir þing Kristinn Bjarnason hrl.
Af hálfu varnaraðila sækir þing Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl. og einnig er mætt Kristbjörg Stephensen hdl.
Þá kemur fyrir dóminn Reynir Þórðarson, kt. 311029-4529, Kirkjulundi 8, Garðabæ.
Áminntur um sannsögli. Skýrslutakan er hljóðrituð kl. 10.02-10.17.
D: Ég vil biðja Kristinn Bjarnason hrl. um að beina til þín spurningum fyrst.
KB: Já það Kristinn Bjarnason sem spyr, lögmaður dánarbús Jóhannesar Kjarvals sem rekur mál á hendur Reykjavíkurborg þar sem deilt er um eignarétt að listmunum og ýmsum munum sem voru fluttir úr vinnustofu Kjarvals í Sigtúni 7 í vörslu Reykjavíkurborgar haustið 1968. Nú að beiðni Reykjavíkurborgar kom eftir dómsuppsögu í héraði fyrir dóm Jón Halldór Gunnarsson sendibílstjóri og í skýrslu hans nefndi hann nafn þitt í tengslum við aðkomu sína að frágangi og flutningi munanna úr Sigtúni og þetta er tilefni þess að þú ert að það er óskað eftir skýrslutöku af þér hérna fyrir dóminum að þitt nafn kom þá fram í þessari skýrslu hans Jóns Halldórs. Nú þá kannski að spyrja þig bara fyrst að því hvort að þú kannist við þennan nefnda mann Jón Halldór Gunnarsson? V: Já, já frábær starfsmaður.
KB: Getur þú aðeins skýrt það hver voru tengsl hans við Reykjavíkurborg á þessum tíma 1968? V: Já ég get gert það. Nú hann var starfsmaður minn þar sem ég var forstjóri áhaldahúss Reykjavíkurborgar á þessum tíma, frábær starfsmaður og aðkoma okkar að þessu var þannig að Páll Líndal borgarlögmaður hann hafði heimild til þess að kveðja okkur til starfa og þar á meðal náttúrulega að ég skaffaði honum sendibíl og bílstjóra í þessa flutninga.
KB: Sem sagt þitt starf haustið 1968 það var að þú varst hvað yfirmaður? V: Forstjóri áhaldahúss.
KB: Og getur þú lýst því nánar hver það var sem að og hvernig það bar til að ... V: Já eins og ég greindi frá þá var Páll Líndal borgarlögmaður og hann tengdist þessu máli ákaflega mikið og það er hann sem biður um þessa þjónustu að fá sendibílinn og starfsmanninn til þess að flytja fyrir þá muni Kjarvals og teikningar og meðal annars fluttum við muni upp í gagnfræðiskóla Austurbæjar á þeim tíma og það var ansi mikið magn sem við fluttum inn þar og það var geymt þar ég man ekki hversu lengi en við urðum að skipta um allar skrár að þessum herbergjum þar sem þetta var geymt.
KB: Heldur þú að þetta hafi verið ... V: .. og Alfreð var í þessu líka.
KB: Heldur þú að þetta hafi verið haustið 1968? V: Ja í kringum það, ég þori nú ekki að staðfesta þetta alveg með ártalið en svona gekk þetta fyrir sig.
KB: Þarna 1968 sem sagt manstu eitthvað eftir því að Alfreð Guðmundsson hafi eitthvað komið að því að biðja um ... V: Nei það var í gegnum Pál sem að hann, hann vann í gegnum Pál.
KB: Já hver var það sem hafði samband við þig? V: Það var Páll.
KB: Sem sagt á þessum tíma? V: Já og tengdi okkur við Alfreð sem var frámunalega leiðinlegur maður.
KB: En manstu eitthvað hver fyrirmælin voru, hvað það var sem þú áttir að biðja Jón Halldór að gera? V: Það tengdist því að þeir biðja um hann til þjónustu að flytja þetta og hann er starfsmaður hjá mér með sendibíl og hann bara gengur í það.
KB: Getur þú eitthvað tímasett það nánar hvenær? V: Nei ég þori nú ekki að gera það en það hlýtur að vera á þessu tímabili sem Páll Líndal er lögmaður og þeir óska eftir þessu báðir tveir og Alfreð kom nú mest fram í þessu máli með flutninginn og ég kom í gagnfræðiskóla Austurbæjar þegar þetta var gjört bara til þess að líta á þetta og þetta var verulegt magn sem flutt var inn.
KB: Þannig að það sé nú skýrt að samkvæmt gögnum sem liggja fyrir í málinu þá ja það hefur að minnsta kosti ekki komið fram hingað til að munir hafi verið fluttir úr Sigtúni 7 og beint í gagnfræðiskóla Austurbæjar sem sagt haustið ´68 en ... V: Hefur það ekki komið fram?
KB: Nei það hefur hins vegar komið fram að það hafi verið gert sumarið ´71, getur verið að það ... V: Já þarna get ég geigað á ártalinu, ég skal játa það að ég get geigað ...
VHV: Vitnið hefur ekki fullyrt neitt um ártal.
KB: Nei, nei ég þekki það vel en ég vil benda á þetta bara ef að það kann að vera einhver, þetta er langt um liðið auðvitað og erfitt kannski að muna það nákvæmlega hvað gerðist frá ári til árs. V: Það var svo mikil umsýsla að maður skrifaði ekki svona niður hjá sér.
KB: En varðandi þennan flutning þessara muna og aðkomu Jóns Halldórs, fékkst þú einhver skrifleg fyrirmæli um þetta eða? V: Nei, nei aldrei nokkurn tímann. Þetta var bara beiðni og þjónusta sem við veittum borgarfyrirtækjum og Páll Líndal sem lögmaður borgarinnar hann hafði náttúrulega fulla heimild til þess að óska eftir þessu og það var eingöngu að hans tilmælum sem þetta var gjört.
KB: Minnist þú þess að það hafi eitthvað verið minnst á að Kjarval væri að gefa eitthvað í þessu sambandi? V: Aldrei nokkurn tímann, hvarflaði ekki að nokkrum manni. Ég heyrði aldrei nokkurn mann minnast á það að Kjarval ætlaði að gefa, aldrei.
KB: Taldir þú þegar þú varst að fá Jón Halldór í þetta að hann ætti þá að fara að aðstoða Kjarval við að rýma vinnustofuna að Sigtúni 7? V: Já í gegnum Alfreð og Pál Líndal, þeir voru lykilmenn í þessu.
KB: Var eitthvað rætt um það hver ætti að greiða fyrir þjónustu Jóns Halldórs? V: Ja það var nú auðséð sko borgin biður um þetta og Páll Líndal hefur .... því og hann hefur heimild og þar af leiðandi er þetta bara gjört.
KB: Hafðir þú einhver afskipti af því á þessum tíma að því að þú minnist að hvert ætti að fara með munina allt svo fyrirmæli um það? V: Nei, nei það kom ég hvergi nærri enda enga heimild til þess.
KB: En varst þú í einhverjum, manstu eftir að hafa verið í einhverjum samskiptum við Jón Halldór Gunnarsson á meðan hann vann að þessu verki? V: Hverju?
KB: Manstu eftir að hafa verið í einhverjum samskiptum við Jón Halldór Gunnarsson á meðan að ... V: Bíddu hvað áttu við?
KB: Á meðan hann er að vinna þetta verk þarna niður í Sigtúni? V: Nei, nei honum var bara falið þetta af minni hendi að þjónusta þessa aðila sem hann gjörði áreiðanlega mjög vel, mjög hollur og góður starfsmaður.
KB: En þú sem sagt heyrir það aldrei á þessum tíma og þessum árum neitt um það að Kjarval hafi verið að gefa þetta? V: Fráleitt, alveg gjörsamlega fráleitt. Það minntist ekki nokkur maður á það, hvorki Alfreð né Páll Líndal að það stæði til að gefa borginni þetta, bara ekki í myndinni.
KB: Þekktir þú eitthvað til persónulega til Kjarvals? V: Ja ég er nú borinn og barnfæddur í Reykjavík svo maður sá nú manninn oft. Ég kynntist honum lítillega bara svona.
KB: En hafðir þú einhver samskipti við Kjarval þarna haustið ´68 og ´69? V: Nei aldrei.
KB: Og þú komst sem sagt ekki í Sigtúnið út af þessu verkefni? V: Nei.
KB: En þú hefur væntanlega þekkt, þegar Geir Hallgrímsson var borgarstjóri á þessum tíma ekki satt? V: Jú, jú.
KB: Og væntanlega þurft að eiga einhver samskipti við hann í því starfi? V: Já ég hafði mikil samskipti við hann.
KB: Kannski aðeins bara ef þú myndir lýsa því hvernig hann kom þér fyrir í störfum sínum sem borgarstjóri til dæmis hvort hann hafi haft formlegheit í hávegum og kannski kurteisi? V: Frábær, alveg frábær.
KB: Og var hann formlegur yfirleitt í samskiptum? V: Já hann var það, mjög svo.
KB: En þekkir þú eitthvað til Þorvaldar Þorvaldssonar leigubílstjóra? V: Nei ja ég veit bara hver hann er og búið.
KB: Vissir þú eitthvað til þess að hann starfaði eitthvað fyrir Reykjavíkurborg eða borgarstjóra á þessum árum? V: Það má vel vera en mér var ekki kunnugt um það en Geir var mjög solid maður, mjög svo.
KB: Kannski bara að lokum, hafðir þú einhver samskipti við eða ræddir þú þetta mál eitthvað við Jón Halldór Gunnarsson eftir að hann hafði lokið starfinu? V: Nei þetta voru miklar annir á þessum tíma og honum var svo vel treystandi að það gekk allt eins og smurð vél sem hann tók að sér.
KB: Takk fyrir.
D: Þá mun lögmaður varnaraðila Vilhjálmur Vilhjálmsson spyrja þig.
VHV: Þessi flutningur, getur vitnið skýrt eða kannski aðeins að skerpa á því að það er Reykjavíkurborg sem sér algjörlega um þennan flutning? V: Já.
VHV: Húsnæðið sem að þessir munir voru fluttir í, var það húsnæði í eigu og á vegum Reykjavíkurborgar? V: Já á þessum tíma á bæði ríkið og Reykjavíkurborg gagnfræðiskóla Austurbæjar.
VHV: En það húsnæði var sem sagt, þetta var flutt þarna á vegum Reykjavíkurborgar? V: Já.
VHV: Í húsnæði sem borgin útvegaði? V: Já við sáum alveg um það.
KS: Þegar þú segir að Geir Hallgrímsson hafi verið mjög formlegur í samskiptum, hvað áttu við með því? V: Ja ég á við með því að það er náttúrulega að vera formlegur að vera mikill ... í allri framkomu, orðheldinn og kurteis.
KS: Orðheldinn og kurteis maður? V: Já.
KS: Þegar þú lýsir því yfir að það hafi ekki verið í huga nokkurs manns að Kjarval hafi gefið Reykjavíkurborg þessi verk að þau hafi verið flutt í þeim tilgangi, á hverju byggir þú þá afstöðu þína? V: Ja ég hafði nú viðtöl við þessa menn og stafað mikið með þeim og ég hefði átt að heyra það á þeim á þessum tíma hefði það staðið til.
KS: Vannstu mikið með starfsfólki borgarskjalasafns? V: Já ég vann mikið með þeim og sérstaklega með Páli á þessum tíma því hann var í þessu listaverka og menningaliðinu og við fluttum oft ýmislegt annað fyrir hann og þess vegna hafði ég mikið samband við hann.
KS: Getur þú gert greinarmun á því þegar þú hugsar tilbaka hvort að Páll er að biðja þig um að flytja þetta úr vinnustofunni í Sigtúni og niður í Skúlatún eða hvort hann er að biðja þig um að flytja þetta frá Skúlatúni og upp í Gagnfræðiskóla Austurbæjar eða úr Sigtúni og upp í Gagnfræðiskóla Austurbæjar eða manstu bara eftir flutningunum? V: Bara flutningunum.
KS: Þú manst bara eftir flutningunum ekki hvaðan og hver og nákvæmlega hvenær? V: Nei maður verður bara að geta sér til sko.
VHV: Ef ég skil vitnið rétt þá hafði vitnið ekki nein bein afskipti af þessum flutningum annað en að koma þeim á það er að segja útvega starfsmann félagsins? V: Nei, ég snerti ekkert og til þess að skýra þetta frekar þá var þetta bara starfsmaður minn sem ég fel að gera þetta og hann gerir það frábærlega vel.
VHV: Nákvæmlega þannig að vitnið fer ekki á staðinn, vitnið hefur ... V: Ja ég var tilneyddur til að fara upp í Gagnfræðiskóla Austurbæjar vegna þess að við urðum að skipta þarna um skrár það var gerð krafa til þess og ég fékk mannskap til þess að gera það og nánast að vakta þetta því þetta voru náttúrulega mikil verðmæti það sáu það allir.
VHV: En það er sem sagt rétt skilið að vitnið hafði ekki bein afskipti af þessum flutningum og ekki bein samskipti við neinn sem að þeim komu, Kjarval? V: Jú hina alla, ég hafði náttúrulega samband við Jón ...
VHV: Já ekki í sambandi við sjálfa flutningana sem eða þegar þeir gengu fyrir sig úr einum stað í annan? V: Nei ég gerði það ekki.
VHV: Takk það er ekki fleira.
KB: Kannski ein spurning bara eftir því sem hægt er að fá það skýrt fram það kemur þá bara í ljós, manstu eftir því hvort að þessir flutningar eða beiðni um að sjá um flutninga hvort að það var bara í eitt skipti, eitt tilvik eða hvort að það geti verið að það hafi verið tvö tilvik sem sagt að það hafi verið ... V: Já ég held að það hafi verið tvö eða jafnvel þrjú, þetta var svolitlir snúningar í kringum þetta allt saman og eftir að ég var búinn að gefa heimild um að þjónusta þá þá fór það nú ekki alltaf í gegnum mig.
KB: Þannig að það er mögulegt sem sagt að þú hafir fengið Jón Halldór í þetta ´68 ... V: Já hann hefði áreiðanlega ekki gert það öðruvísi en með mínum tilmælum.
KB: En getur verið að hann hafi verið fenginn aftur að þú hafir fengið hann aftur í þetta sumarið ´71? V: Já.
KB: Upp í Gagnfræðiskóla Austurbæjar? V: Já, allt svo Jón hefði ekki gert neitt nema að ég hefði beðið hann um það, það eru hreinar línur.
KB: En getur þú gert einhvern greinarmun á því hvernig það bar til þá ´68 og ´71 hvort að það var sami maður frá borginni sem bað um ... V: Já það er Páll Líndal svo framarlega að hann hafi verið í því starfi lengi, er það vitað hvað hann var lengi?
KB: Ja hann er væntanlega í starfi ´71 en ég er ekki alveg klár hvernig var ´68.
VHV: Það var Páll Líndal sem hafði samband.
KB: Ja vitnið náttúrulega vitnar bara um það sem hann man þannig að ef hann man það ekki þá er auðvitað hægt að finna upplýsingar um það annarsstaðar. V: Já það er náttúrulega hægt að finna það hvenær Páll Líndal lætur af störfum.
KS: Við eigum þær upplýsingar hjá borginni, við finnum út úr því.
D: Eru fleiri spurningar?
KB: Nei takk.
D: Þá er þetta komið, þakka þér fyrir.
Víkur frá.

Þá kemur fyrir dóminn Jón Árnason, kt. 030931-3009, Sléttuvegi 13, Reykjavík.
Áminntur um sannsögli. Skýrslutakan er hljóðrituð kl. 10.18-10.25.
D: Gjörðu svo vel.
KB: Já Kristinn Bjarnason heitir ég og er lögmaður dánarbús Jóhannesar Kjarvals listmála. Nú tilefni þess að þú ert boðaður hingað til að gefa skýrslu fyrir dómi er að dánarbúið rekur mál fyrir dómstólum á hendur Reykjavíkur þar sem deilt er um eignarrétt á listmunum og ýmsum munum sem voru fluttir úr vinnustofu Kjarvals að Sigtúni í vörslu Reykjavíkurborgar haustið 1968. Nú að beiðni Reykjavíkurborgar kom eftir uppsögu dóms í héraði fyrir dóm til þess að gefa skýrslu Jón Halldór Gunnarsson sem var sendibílstjóri. Í skýrslu hans var þitt nafn nefnt ef ég man rétt í tengslum við spurningar um Þorvald Þorvaldsson leigubílstjóra og það er kannski bara fyrst að spyrja þig hvort þú kannist við Jón Halldór Gunnarsson? V: Já ég veit hver hann er, sendibílstjóri sem var þarna við áhaldahús Reykjavíkurborgar mjög lengi, í áraraðir alveg.
KB: En hvert var þitt starf hjá Reykjavíkurborg? V: Mitt starf að ég var bílstjóri við embætti borgarstjóra og ég tek skýrt fram að ég var ekki fastur bílstjóri hjá Geir því ég var með Gunnlaug Pétursson og fleiri reyndar, við vorum tveir bílstjórarnir en ég var aðallega með Gunnlaug en náttúrulega greip ég í þegar að þurfti með Geir en hann er nýdáinn sá sem var hans fasti maður.
KB: En hvaða ár var það sem að þú hófst starf sem bílstjóri á skrifstofu borgarstjóra? V: ´63, ég byrjaði hjá borginni ´57 og fæ svo þarna starf ´63.
KB: Og hvað ertu lengi í starfi þarna? V: Þarna er ég alveg þangað til Davíð Oddsson kemur og ég fylgdi honum yfir í ráðuneyti svoleiðis að ég er búinn að vera með hann í 26 ár þegar ég skildi við hann núna.
KB: Já það er bara vel af sér vikið held ég. V: Já ég held að ég hafi staðið mig vel, þetta losaði 50 árin sem atvinnubílstjóri.
KB: En þau atvik sem er nú fyrst og fremst verið að fjalla um í þessu máli eru að gerast haustið ´68 og út það ár má segja og þú sem sagt ert þá bílstjóri á borgarstjóraskrifstofu á þeim tíma? V: Já, já.
KB: Kannast þú við Þorvald Þorvaldsson? V: Já, já aðeins.
KB: Getur þú eitthvað upplýst um það hvernig eða starfaði hann eitthvað að akstri borgarstjóra eða fyrir borgina á þessum tíma og þá er ég að tala um haustið ´68? V: Já hann var nú, ef að þurfti leigubíl þá var hann alltaf tekinn.
KB: Var það þá í þeim tilvikum þegar fastir eða bílstjórar skrifstofu borgarstjóra voru uppteknir eða eitthvað slíkt? V: Já eða þurfti fleiri bíla bara, við vorum bara tveir og hann var alltaf kallaður til.
KB: Það var nú Jón Halldór Gunnarsson, hann í sinni skýrslu kallaði nú Þorvald varaborgarstjóra bílstjóra en ég held að hann hafi titlað þig sem aðalmann í þeim, er það réttnefni um starf? V: Nei ég vil ekki segja það þar sem ég er bílstjóri fyrir borgarritara aðallega. Ég er ráðinn þannig.
KB: Já en ég er að tala kannski um Þorvald að hann hafi, ég er nú að bera undir þig það sem að Jón Halldór segir að hvort að það hafi verið réttnefni að kalla Þorvald varaborgarstjóra bílstjóra? V: Ja allavega ekki varaborgarstjóra bílstjóra en hann var kallaður til þegar eitthvað þurfti, hann einn og hann var voðalega mikið í kringum skrifstofu borgarstjóra.
KB: En minnist þú þess að hafa ekið Geir Hallgrímssyni einhvern tímann á vinnustofu Kjarvals? V: Nei.
KB: Að Sigtúni 7? V: Nei ég er ekki með það á hreinu.
KB: Hafðir þú einhver afskipti af frágangi og flutningi muna Kjarvals úr Sigtúni 7 haustið ´68? V: Nei.
KB: Minnist þú þess á þessum tíma að hafa heyrt talað um það að Kjarval hafi gefið Reykjavíkurborg þessa muni úr Sigtúninu? V: Ég þori ekki að segja um það en ég er ekki alveg frá því, ég veit að ég hef heyrt minnst á það bara utan að mér.
KB: Manstu eitthvað hvenær það var og frá hverjum? V: Nei.
KB: Þekktir þú Kjarval persónulega? V: Nei.
KB: Og þú ert ekki í neinum samskiptum við hann á þessum tíma? V: Nei.
KB: Kannski aðeins þá varðandi, þú hefur náttúrulega kynnst Geir Hallgrímssyni? V: Já ég kynntist honum.
KB: Í störfum þínum? V: Já mikill ágætismaður.
KB: Og getur þú eitthvað lýst því svona hvernig hann kom þér fyrir sjónir í störfum sínum, var hann? V: Ég hugsa að hann hafi verið mjög vandaður maður að öllu leyti.
KB: Var hann formlegur í samskiptum? V: Já mér fannst það svona frekar.
KB: Það er ekki frekar.
VHV: Ekkert hér.
D: Þá þakka ég þér fyrir komuna.
Víkur frá.
Vitnamálinu er lokið.
Dómþingi slitið
Sigríður Hjaltested.
Vottur:
Hulda Júlía Sigurðardóttir.